Þvottaleiðbeiningar fyrir ull
Share
Hér má lesa þvottaleiðbeiningar fyrir EC ullarbleyjurnar og ullarbuxurnar.
Það góða við ull er að það þarf ekki að þvo hana oft. Ullin hreinsar sig nánast sjálf þegar maður viðrar hana (sérstaklega úti í ferska loftinu) og fjarlægir alla lykt. Það þarf því einungis að þvo ullarbleyjurnar (skeljarnar) og ullarbuxurnar ef þær verða virkilega óhreinar eða eru ekki lengur vatnsheldar. Til að gera ull aftur vatnshelda þarf að leggja hana í lanolinbað.
Ullarbleyjur og ullarfatnað skal þvo á ullarprógrammi í þvottavél eða í hendi með ullarsápu. Ekki í heitu og ekki nudda eða skrúbba. Ullin fer í lanolinbað meðan hún er enn blaut.
Ath. að dökkar flíkur skal alltaf þvo sér og setja í sér lanolinbað. Litir geta smitast jafnvel eftir marga þvotta.
Það sem þú þarft fyrir lanolin bað:
- Hreint lanolin
- Milt barnasjampó eða lífæna ullarsápu eða lífrænan uppþvottalög
- 1 stóran bolla og 1 teskeið
- Skál
- Disk til að þyngja
- Vatn
Hvernig á að útbúa lanolin bað?
Aðferð fyrir 1 ullarbleyju og 1 ullarbuxur
- Leysið 1 teskeið af lanolini með dropa af barnasjampói (eða annarri lífrænni sápu) upp í bolla af heitu vatni
- Hrærið kröftulega þar til mjólkurhvítur vökvi hefur myndast
- Fyllið skál af volgu vatni (sirka 37°)
- Hellið mjólkurhvítu blöndunni úr bollanum í skálina af volgu vatni
- Leggið blauta ullarfatnaðinn í skálina og þrýstið varlega undir vatnið. Notið disk til að þyngja, vatnið á að flæða vel yfir fatnaðinn.
Látið ullina liggja í lanolinbaði í amk 3 klst, helst yfir nótt. Best er að snúa bleyjunum út svo þær nái að drekka lanonilið almennilega í sig. Vindið síðan varlega í höndunum eða á 600 snúning í þvottavél. Leggið ullina flatt á handklæði til þerris.