Um Barnið sjálft

 

Ég heiti Sóley og stend á bakvið Barnið sjálft, ásamt manninum mínum Andra. Við erum þriggja barna foreldrar. Hér hjá Barnið sjálft er að finna bleyjulausan klæðnað úr náttúrulegum efnum og fróðleik til að einfalda fjölskyldum að styðja við koppanotkun barna sinna allt frá fæðingu.

Við uppgötvuðum Bleyjulaust uppeldi (e. Elimination Communication) þegar fyrsta barnið okkar var þriggja mánaða og er það eitt af því besta sem við höfum lært í uppeldinu. Við öðluðumst enn dýpri tengingu við dóttur okkar og hennar þarfir, tengdumst okkar innsæi betur og uppeldið varð einfaldara. Það skemmdi ekki fyrir hversu umhverfisvænt og sparnaðarsamt það er að geta boðið barninu á koppinn í stað þess að reiða sig eingöngu á fjöldan allan af bleyjum.

Með yngri börnunum okkar var engin spurning að bjóða þeim á koppinn strax frá fæðingu. Við vildum þó einfalda koppanotkunina meira með því að notast við bleyjulausan fatnað, sem er sérstaklega þægilegt þegar koppurinn er notaður oft á dag. 

Nafnið Barnið sjálft stafar frá því að börn geta gert svo margt, það þarf bara að veita þeim tækifærin til þess. Við höfum mikla ástríðu fyrir því að virða börn sem hæfa einstaklinga allt frá fæðingu. Þess vegna heillumst við af þeirri náttúrulegu og virðingarríku leið að bjóða ungabörnum á koppinn þegar þau þurfa að gera þarfir sínar.

Ungabörn eru ótrúlega tengd innsæinu sínu og láta greinilega vita ef það þarf að sinna grunnþörfum þeirra, eins og þegar þeim er mál (og eru svöng eða þreytt). Í nútímasamfélagi þar sem alger bleyjunotkun er orðið normið, fjarlægjumst við því að sinna þessari grunnþörf hjá barninu, missum af merkjum barnsins og tengingu við barnið á því sviði. Við viljum að foreldrar geti stigið aftur til baka í náttúruna í takt við nútímann með einföldum hætti.